top of page
Eyrin: Music Player

VEFVERZLUN

Allar vörur Grettir Flateyri nú fáanlegar í Gömlu Bókabúðinni Hafnarstræti og í vefverzlun.

Eyrin: Text
Eyrin: Pro Gallery
64290957_366507827555116_913947464820588

GRETTIR FLATEYRI

fæst í Gömlu Bókabúðinni

Eyrin: Welcome

GRETTIR FLATEYRI

Vörur Grettir Flateyri fást í Gömlu Bókabuðinni, Hafnarstræti Flateyri.

Einnig í vefverzluninni þeirrar ágætu búðar.

gamlabokabudin.is

Við höfum tekið okkur það bessaleyfi að birta hér nokkrar gamlar myndir úr starfi félagsins. Höfundar myndanna eru birtir á Instagram-síðu félagsins.   


Það er kallað að vera 'móðins'. Handboltastelpurnar okkar skarta hér sínu fegursta.  Hvítt & Blátt.  

1620905_10152168863862740_61931796_n.jpg
Eyrin: About
Eyrin: Instagram

MERKIÐ

Flateyringurinn Rafn Gíslason, sem bjó á Ránargötu 4, endurteiknaði merkið 2019 eftir teikningum af upprunalega merki félagsins.  Rafn var einnig virkur félagsmaður og leikmaður Grettis.

Steinarnir þrír í merkinu tákna 'Grettistak'

Grettistök heita stóreflisbjörg, sem sagt er, að Grettir sterki hafi lyft upp á smærri steina, sem þau hvíla á. Grettistak er á Þingmannaheiði og annað á Trékyllisheiði.  Steinatök þessi eru svo stór, að óhugsandi er, að nokkur maður hefði getað náð tökum á þeim til þess að hreyfa þau, enda þótt hann hefði haft næga krafta til þess. 

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) segir í 693. grein sem fjallar um fornminjar í Dalasýslu og á Vestfjörðum:

Grettir A.gif
Eyrin: About
11048756_1683687175187578_7400876467079251410_o_edited.jpg

GRETTIR

SKINFAXI 1955

Árið 1933 var íþrótta-félagið Grettir stofnað á Flateyri.  Stofnendur voru flestir unglingar á aldrinum frá 15-20 ára, og er sá aldursflokkur enn ráðandi í félaginu. Meðal þessara unglinga voru nokrir sem lært höfðu sund, bæði við héraðsskóla, og eins í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, og höfðu hrifizt svo af þeirri íþrótt, að það réð bæði nafngift félagsins og því, að í lögum þess var það fram tekið, að höfuðmarkmið þess skyldi það, að komið yrði upp sundlaug á Flateyri.  Þetta ákvæði virtist þó fremur eiga skylt við frómar óskir en veruleika, enda virtist svo um hríð, sem þar mundi fara sem oftar, að látið yrði sitja við samþykktina eina.

1937 mun það svo hafa verið, að horfið var að framkvæmdum, en ekki var risið hátt, sem vonlegt var hjá félausu félagi, skipuðu nokkrum unglingum.  Síldarverksmiðjur ríkisins á Sólbakka áttu vatnsþró, skammt frá verksmiðjunni, sem ekki var notuð, enda sprungin og óþétt.  Þessa vatnsþró fékk nú félagið að lagfæra og nota, og það sem þó skipti meiru máli, verksmiðjan lagði til ókeypis gufu til að hita upp vatnið.  Þarna var sund kennt í 2 ár, með furðanlegum árangri, en þá var hætt að starfrækja verksmiðjuna og féll þá þessi starfræksla einnig niður, því nú skorti hitann.

Þessi litla tilraun hafði þó gefið humyndinni um sundlaugarbygginguna byr undir vængi. 1940 komu svo íþróttalögin, og horfði þá byrlegar, en fé var þó ekkert enn fyrir hendi að ráðast í slíkar framkvæmdir.  Þá var félagsmaður í Gretti Jón Jónsson forstjóri og aðaleigandi Hraðfrystihúss Flateyrar h.f.  Var hann áhugamaður um félagsmál, og enginn hálfvelgjumaður.  Rekstrarafkoma hraðfrystihússins var góð á þessum árum, og ákvað Jón, í samráði við meðstjórnendur sína að verja nokkru af rekstrarhagnaði til byggingar á sundlaug, sem hituð skyldi upp með kælivatni frá vélum hraðfrystihússins.  Var þetta gert, og laugin formlega afhent Gretti til starfrækslu á aðalfundi félagsins 1943.  Grettir starfrækti svo sundlaugina í þrjú ár, með góðum árangri, en þá komu þau atvik til, að enn féll starfrækslan niður.

Eins og fyrr segir var félaginu afhent laugin til starfrækslu árið 1943, en hins vegar taldi stjórnin og félagsmenn, að í því hefði ekki fallizt eignarheimild fyrir lauginni.  Nú hafði það tvennt gerzt, að skemmdir höfðu komið fram á laugarþró, og skipt hafði verið um vélar í hraðfrystihúsinu, og var ekki lengur hægt að nota kælivatn véla til upphitunar. Var ljóst að umbætur mundu kosta allmikið, og taldi félagið sér ekki fært að ráðast í slíkt án þess að skýlaus eignarheimild fyrir mannvirkinu lægi fyrir.

Hraðfrystihús Flateyrar hafði þá verið selt öðru félagi, og fyrri eigendur fluttir burtu, en sundlaugin hafði verið undanskilin í sölunni, enda munu þeir hafa litið á hana sem eign Grettis, eins og síðar kom í ljós.  Var nú leitað til þeirra um formlegt afsal á lauginni til Grettis, og kom það í okt. 1948.

Var þá þegar hafizt handa um að undirbúa nauðsynlegar viðgerðir og endurbætur, sem þurfti til þess að laugin kæmist í nothæft ástand.  Var þó sýnt, að enn mundi örðugt um fjárhaginn.  Handbært fé félagsins voru kr. 4000.00, en kostnaðaráætlun mannvirkja þeirra, sem gera þurfti kr. 60.000.00  Mátti því segja, að fremur réði bjartsýni en fyrirhyggja ákvörðunum félagsins.  En hér fór sem oftar, að mikið má góður vilji, og bjarsýni æskunnar er oft raunhæfari en rök hinna eldri.  Nú er kostnaður við þessa framkvæmdir orðinn um 100 þús.  að meðtöldu framlagi íþróttasjóðs, og er þó félagið að mestu skuldlaust.  Félagið hóf þegar fjáröflun um leiksýningum og fleiri skemmtunum, og varð vel ágengt, en auk þess veittu ýmsir aðilar því mikilsverða aðstoð.  Flateyrarhreppur hefur veitt ríflegan styrk til byggingarinnar, auk þess sem hann gekk í ábyrgð fyirir láni, sem félagið tók, fjórðungsdeild fiskifélagsins á Vestfjörðum lagði fram kr 5000.00 og Kaupfélag Önfirðinga önnur 5000.00.  Fleiri aðila mætti nefna, sem að málinu studdu, og m. a. gaf Jon Jónsson byggingarmeistari hluta af andvirði hitunartækja, sem hann hafði útvegað.

Sumarið 1949 var laugin svo tilbúin til notkunar að nýju.  Hafði verið byggt rúmgott ketilhús, þar sem einnig var gert ráð fyrir að komið yrði fyrir hreinsitækjum, og sundlaugarþró og pallar endurbættir.  Laugin er nú hituð upp með olíukyntri miðstöð, en auk þess liggur að henni gufulögn frá fiskimjölsverkssmiðju Ísfells h.f.  Hefur hún verið starfrækt árlega síðan 1949, þótt misfellasamt hafi orðið stundum.  T. d. sprakk hitunarketill í lok sundtímabils 1953, en nýr ketill var fenginn í hans stað og betur um búið en áður.

Eins og fyrr segir, er Grettir að mestu skipaður unglingum milli fermingar og tvítugs, sem ekkert hafa fram að leggja nema vinnu sína í þágu félagsins, og hafa því þessar framkvæmdir verið þeim ærið verkefni, þótt ekki séu þær meiri.  Og nóg verkefni eru framundan, því mikið skortir enn á, að laugin sé komin í það horf, sem æskilegt er.  En slíkt ber sízt að harma.

Starfið fyrir sundlaugina hefur verið líftaug Grettis.  Þar hefur félagið haft verkefni, svo nálægt, að allir hafa getað eygt tilganginn, en síðasti áfanginn þó nógu fjarlægur til þess að veita áframhaldandi verkefni um mörg ár enn.

Auk þess veitir svo hvert sumar nýtt starf við að sjá um sundnámskeið og afla fjár til þeirra, því að sjálfsögðu er ekki hægt að reka sundlaugina, þó ekki sé meir en mánaðartíma á sumri hverju, án verulegs halla.  Loks er þá að minnast á það, hvers virði þessi sundlaug er Flateyringum.  Nú eru flest börn farin að fleyta sér á sundi 6-7 ára gömul, og hygg ég að mörgum foreldrum sé rórra, er þau vita börn sín á bryggjunni og út um báta, nú en áður, þegar þau gátu enga björg sér veitt, ef þau féllu í sjó, og fimm fulltíða menn má sannanlega telja hér á Flateyri, sem hafa bjargað lífi sínu eingöngu vegna sundkunnáttu.  En þetta er saga, sem svo víða gerist um Ísland, þótt það sé aðeins rifjað upp hér.  Hin almenna sundkunnátta Íslendinga er áreiðanlega ekki lakasti þátturinn í slysavörnum landsmanna.  Loks vil ég svo þakka þeim mönnum, sem stóðu að setningu íþróttalaganna 1940, og íþróttafulltrúa, sem jafnan hefur fylgzt með málum okkar hér af vakandi áhuga.  Án þeirrar hvatningar mundi lítið félag í útkjálkaþorpi sennilega hafa heykzt á því að koma óskadraum sínum um sundlaug í framkvæmd.


Hjörtur Hjálmarsson

Skinfaxi

46. árgangur 1955

1. Tölublað 01.04.1955

bls 18-21

Read More
Eyrin: Text
bottom of page